Evrópsk öxl (bakstykki)

Peysur og jakkapeysur með evrópskum öxlum eru með dásamlegu sniði sem henta flestum, þar sem öxlin situr aðeins aftur á bak og á ská (einnig kallaðar skáhallandi axlir). Hönnun með evrópskum öxlum er prjónuð ofan frá og niður, aðeins of stór og venjulega án þess að þurfa að setja stykkin saman.

Fyrst er efsti hluti á bakstykki prjónaður, eftir það eru lykkjur teknar upp til að prjóna vinstra framstykki, síðan hægra framstykki. Eftir það eru stykkin sett saman, aukið er út fyrir handveg og eftir það er prjónað í hring. Þegar fram- og bakstykki hefur verið prjónað til loka, eru lykkjur teknar upp fyrir ermi, ermakúpan er prjónuð fram og til baka, eftir það er ermin prjónuð í hring.

Í þessum leiðbeiningum sýnum við skref-fyrir-skref hvernig við prjónum fyrri hluta á bakstykki og hvernig við aukum út fyrir evrópskri öxl. Við notum mynstrið í barnapeysunni Sweet Peppermint (DROPS Children 47-12) í stærð 2 ára, en munið að fylgja lykkjufjöldanum / útaukningu í þeirri stærð sem þú hefur valið!

Neðst á síðunni finnurðu myndband sem gæti verið gagnlegt, sem og form þar sem þú getur beðið sérfræðinga okkar um aðstoð ef þú þarft á því að halda!

Nú byrjum við!

Við prjónum með 2 garntegundum, DROPS Lima litur nr. 9029 salviu grænn og DROPS Kid-Silk litur nr. 45 mjúk mynta og með 5 mm prjónum.

Fitjið upp 20 lykkjur með 1 þræði DROPS Lima og 1 þræði DROPS Kid-Silk með 5 mm prjónum – eða það garn og lykkjufjölda sem stendur í mynstrinu sem þú ert að prjóna. Þessi uppfitjunarkantur er efsti partur af hnakka á bakstykki. Sjá breiða línu í teikningu með máli.

Prjónið 1 umferð brugðið frá röngu.

Setjið 1 merki innan við ystu 3 lykkjur í hvorri hlið. Merkin eiga að sitja innan við ystu 3 lykkjur á hvorum prjóni og fylgja áfram með í stykkinu.

Nú er prjónað sléttprjón fram og til baka. JAFNFRAMT er aukið út til vinstri á EFTIR merki í byrjun umferðar séð frá réttu, þannig:
Notið vinstri prjón til að taka upp þráðinn á milli 2 lykkja frá umferðinni að neðan, þráðurinn er tekinn upp að framan.

Lykkjan er prjónuð slétt í aftari lykkjubogann.

Aukið er út til hægri á UNDAN merki í lok umferðar séð frá réttu þannig:
Notið vinstri prjón til að taka upp þráðinn á milli 2 lykkja frá umferðinni að neðan, þráðurinn er tekinn upp að aftan.

Lykkjan er prjónuð slétt í fremri lykkjubogann.

Í næstu umferð (frá röngu) er aukið út á sama hátt.
Aukið út til vinstri á EFTIR merki þannig:
Notið vinstri prjón til að taka upp þráðinn á milli 2 lykkja frá umferðinni að neðan, þráðurinn er tekinn upp að aftan.

Lykkjan er prjónuð brugðið í fremri lykkjubogann.

Aukið út til hægri á UNDAN merki þannig:
Notið vinstri prjón til að taka upp þráðinn á milli 2 lykkja frá umferðinni að neðan, þráðurinn er tekinn upp að framan.

Lykkjan er prjónuð brugðið í aftari lykkjubogann.

Haldið svona áfram og aukið út bæði frá réttu og frá röngu alls 14 sinnum í hvorri hlið, eða eins og stendur í mynstrinu sem þú prjónar eftir. Á eftir síðustu útaukningu eru 48 lykkjur á prjóni. Breiða línan í teikningu með máli sýnir hvar við höfum prjónað hingað til.

Prjónið 4 umferðir yfir allar lykkjur (án þess að auka út).

Færið merkin þannig að þau sitji yst í hvorri hlið á stykki, stykkið er nú mælt héðan.

Prjónið áfram í sléttprjóni fram og til baka þar til stykkið mælist 5 cm eða eins og stendur í mynstrinu sem þú prjónar eftir, mælt frá merki yst meðfram handvegi.

Nú er aukið út um 1 lykkju í hvorri hlið, aukið út innan við 3 lykkjur í hvorri hlið, munið eftir ÚTAUKNING FRÁ RÉTTU, sjá neðan. Aukið út í 2. hverri umferð (= hverri umferð frá réttu) alls 4 sinnum = 56 lykkjur .

ÚTAUKNING FRÁ RÉTTU:
Aukið út til vinstri á EFTIR MERKI:
Notið vinstri prjón til að taka upp þráðinn á milli 2 lykkja frá umferðinni að neðan, þráðurinn er tekinn upp að framan og lykkjan er prjónuð slétt í aftari lykkjubogann.
Aukið út til hægri á UNDAN MERKI:
Notið vinstri prjón til að taka upp þráðinn á milli 2 lykkja frá umferðinni að neðan, þráðurinn er tekinn upp að aftan og lykkjan er prjónuð slétt í fremri lykkjubogann.

Prjónið áfram þar til stykkið mælist 9 cm eða það mál sem stendur í mynstrinu sem þú prjónar eftir, mælt yst meðfram handvegi.

Klippið þráðinn, setjið lykkjur á þráð eða á hjálparprjón.

Nú er fyrri hluti á bakstykki prjónaður. Næsta skref er að prjóna framstykkið.

Sjá hvernig í leiðbeiningum:
Evrópsk öxl (framstykki)

Vantar þig aðstoð?

Ef þig vantar nánari upplýsingar varðandi mismunandi prjón á lykkjum eða aðferð, þá er hér listi yfir kennsluleiðbeiningar og kennslumyndbönd til aðstoðar:

Skrifa athugasemd eða spurningu við þetta kennslumyndband

Netfangið þitt verður ekki birt. Það verður að merkja við svæði merktri með *.