Hvernig á að lesa hekl mynsturteikningu

Hekl mynsturteikning samanstendur af táknum, 1 tákn = 1 lykkja (eða hópur af lykkjum) – útskýring með táknum segir til um hvernig á að hekla lykkjurnar. Mynsturteikningin sýnir allar lykkjur séð frá réttu (nema annað sé tekið fram).

Hefðbundin hekl mynsturteikning lítur oftast út þannig:

1: A.1 er nafnið á einingunni og á við um alla mynsturteikninguna – innan í sviga. Það sem stendur innan í sviga er 1 eining af mynsturteikningu.
2: Þetta er útskýring á táknum, sem sýnir hvernig hvert tákn er heklað.
Bláar örvar: Táknin eru hekluð í eða um táknið sem er beint fyrir neðan. Stundum á að hekla nokkrar lykkjur í sama táknið.
Fjólublá sporöskulaga tákn og örvar: Ekki er alltaf heklað í lykkjur: stundum er hekluð ein loftlykkja og hoppað er yfir stuðul sem er beint fyrir neðan.

Mynsturteikning er lesin gagnstætt við það sem við lesum vanalega: Frá hægri til vinstri, neðan frá og upp. Þú byrjar sem sagt neðst í hægra horninu og vinnur þig til vinstri, tákn fyrir tákn, röð fyrir röð upp úr (sjá RAUÐAN hring og örvar).

Þegar hekla á nokkrar einingar af mynstri (eða þegar endurtaka á mynstrið á breiddina), þá heklar þú að enda á röðinni í mynsturteikningunni og byrjar uppá nýtt aftur á fyrsta tákni.

Fram og til baka:

Þegar hekla á fram og til baka er önnur hver umferð hekluð frá réttu og önnur hver umferð er hekluð frá röngu. Þegar heklað er frá röngu þá verður að lesa mynsturteikningu í gagnstæða átt: Þ.e.a.s. frá vinstri til hægri (sjá rauða ör fyrir réttu og bláa ör fyrir röngu í mynsturteikningunni að neðan).

Umferðirnar byrja að venju með x-fjölda loftlykkja – þær jafngilda hæð á næstu lykkju og eru settar inn til að þú komist upp að réttri hæð fyrir næstu lykkju sem á að hekla (sjá græn sporöskjulaga tákn að neðan). Ef loftlykkjurnar eru settar inn í mynsturteikningu (eins og í þessu dæmi) eru öll tákn hekluð sem eru sýnd. Stundum er sett inn í HEKLLEIÐBEININGAR efst í uppskriftinni fjölda loftlykkja sem hekla á í byrjun á umferð og ef þær koma í stað fyrstu lykkju eða ef þær koma sem viðbót. Ef loftlykkjurnar eru EKKI teiknaðar inn í mynsturteikningu: Fylgið þessum leiðbeiningum.

Í hring:

Þegar heklað er í hring, eru allar umferðir heklaðar frá réttu: Frá hægri til vinstri (sjá rauðar örvar í mynsturteikningu að neðan). Hvernig umferðin byrjar og endar er oft teiknað inn í mynsturteikningu (sjá A.2 í dæminu að neðan – grænn ferningur). Eins og þegar heklað er fram og til baka er heklaður x-fjöldi loftlykkja í byrjun á umferð, jafngildir hæð á næstu lykkju. Í lok umferðar tengjast umferðrnar saman með einni keðjulykkju í síðustu loftlykkju sem var hekluð í byrjun. Þ.e.a.s. loftlykkjur í A.2 = byrjun á umferð, en keðjulykkja í A.2 (blár ferningur) = lok á umferð.

Mynsturteikning (A.1) er oft endurtekin nokkrum sinnum á eftir hverri annarri = heklaðar eru nokkrar einingar á breiddina. Þegar þú kemur að síðasta tákni í 1. röð í A.1, byrjaðu aftur á fyrsta tákni. ATH: A.2 er EKKI endurtekið, þetta sýnir HVERNIG umferðin byrjar og endar í öllum umferðum.

Nokkrar mismunandi mynsturteikningar á eftir hverri annarri:

Þegar þú átt að hekla nokkrar mynsturteikningar á eftir hverri annarri á breiddina/í umferð þá heklar þú þannig: Heklið umferð 1 í 1. mynsturteikningu, heklið síðan umferð 1 í 2. mynsturteikningu og umferð 1 í 3. mynsturteikningu o.s.frv. ATHUGIÐ: Ef þú heklar fram og til baka þá verður að lesa mynsturteikningu í gagnstæða átt frá röngu – þ.e.a.s. byrja með mynsturteikningu 3, síðan mynsturteikningu 2 og í lokin mynsturteikningu 1. Heklað er áfram í gagnstæða átt eins og venjulega.

Mynsturteikningar í hring:

Þegar hekla á í hring, þá er byrjað frá miðju og þú vinnur þig út, þetta er oftast teiknað inn í hring á mynsturteikningu. Mynsturteikning getur annað hvort sýnt allan hringinn – þá er hvert tákn heklað eins og stendur í teikningu, eða öll mynsturteikningin sýnir hluta af hring, sem er endurtekið í hring ákveðinn fjölda skipta þar til myndast hefur heill hringur.

Heill hringur:

Í mynsturteikningu með hring þá er byrjað á tákni í miðju á mynsturteikningu: Oftast hringur sem jafngildir x-fjölda loftlykkja sem tengdar eru saman með einni keðjulykkju svo að það myndist hringur (sjá rauður hringur í mynsturteikningu að neðan). Alveg eins og þegar heklað er í hring þá byrjar umferðin með loftlykkjum, þær jafngilda hæð á næsta tákni (sjá blár ferningur í mynsturteikningu að neðan) – ATH. Þegar loftlykkjurnar eru teiknaðar inn í mynsturteikningu koma þær EKKI í stað fyrsta tákns, þannig að næsta tákn er heklað eftir útskýringu.

Þegar loftlykkjur koma í stað tákns er þetta tákn fjarlægt úr mynsturteikningu. Heklað er réttsælis: Frá hægri til vinstri, tákn fyrir tákn upp úr (sjá rauða ör í mynsturteikningu). Ein regla er að lykkjur í 1. umferð eru heklaðar UM loftlykkjuhringinn, sem þýðir að þú stingur heklunálinni inn í miðu á hringnum, sækið þráðinn og heklar lykkjuna eins og venjulega – hún festist sem sagt ekki í loftlykkjuna, heldur er UTAN UM alla loftlykkjuna. Þegar þú kemur að enda á röðinni þá er lykkjan fest eins og venjulega með keðjulykkju og þú heldur áfram í næstu umferð í mynsturteikningu: næst innsta röðin (sjá græna ör í mynsturteikningu að neðan).

Hluti af hring:

Ef aðeins er sýndur hluti af hring er það vegna þess að hlutinn er endurtekinn í hring í x-fjölda skipta. Þú byrjar með hring neðst (sjá rauður hringur í mynsturteikningu) og heklar eins og útskýrt er undir HELL HRINGUR. Alveg eins og þegar heklað er í hring er það regla að það er sér mynsturteikning sem sýnir hvernig umferðin byrjar og endar = hér er það A.1 (sjá blár ferningur í mynsturteikningu að neðan). Þú byrjar sem sagt á umferð næst hring, heklar A.1, síðan heklar þú A.2, þegar þú kemur að síðasta tákninu í kökunni (það er bara 1 tákn í umferð 1), þá byrjar þú uppá nýtt á 1. tákni og heklar kökuna 1 sinni til viðbótar.

Svona heldur þú áfram þar til þú hefur endurtekið eininguna eins oft og stendur í uppskrift og endar með keðjulykkju í A.1. Þegar umferð 1 hefur verið hekluð þá heldur þú áfram í næstu umferð: Næst neðsta umferð í mynsturteikningu (sjá græna ör í mynsturteikningu að neðan).

Fernings mynsturteikning / Lita mynsturteikning:

Stundum er hekl mynsturteikning sýnd í rúðum og þá er 1 rúða = 1 lykkja. Hvaða lykkjur eru heklaðar er oftast útskýrt í texta, en rúðu mynsturteikning sýnir í hvaða litum á að hekla lykkjurnar (sjá rauðan ramma = útskýring á tákni).

Heklað er alveg eins og útskýrt er að ofan, hvort sem heklað er í hring, fram og til baka eða heklaður hringur.